Málverkasýning Einars Magnússonar, opnar  25. Maí  kl. 17-19

Sýningin verður opin: 27.-29. maí kl. 14-17

Sýningin stendur yfir  til 31.maí og verður opin utan opnunartíma eftir samkomulagi (s.8699789)

Verk Einars taka á sig form málverka sem sýna íslensku landsbyggðina í nær- og fjærmynd. Einar skoðar fortíðina í samhengi við nútímann  þar sem hann rýnir í sögu Íslands með landslagsverkum sínum.

Í málverkum Einars koma fram atburðir sem tengjast honum persónulega frá æskuslóðum úr Meðallandinu ásamt sögulegum viðburðum eins og eldgosum, þar á meðal í Vestmannaeyjum og nýlegt gos í Fagradalsfjalli.

Í eldgosaverkum Einars reynir hann að fanga mismunandi tímabil gosins. Þar má nefna gosið í Fagradalsfjalli, þá fylgdist hann grannt með því í nokkra mánuði og túlkaði með bæði hefðbundinni málningu ásamt óhefðbundnum efnivið, eins og hrauni. Verkin fanga sögur landsbyggðar með túlkun Einars á því.

Einar (1936) er frá Lágu-Kotey, Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu. Myndlistarferill hans hófst árið 2011 þegar Einar tók fyrst upp málarapensilinn, eftir erfið veikindi, og hefur ekki látið hann frá sér síðan. Áður fyrr hafði hann starfað lengi sem sjómaður og rekið eigin fiskverslanir.

Einar nýtir sér eldmóðinn frá fyrra starfi í að mála á fullum krafti og er kominn með stórt safn af málverkum.  Bakgrunnur hans af seiglu og jákvæðni kemur sterkt fram í málverkunum og ekki síst í vinnubrögðum.