Dagrún Matthíasdóttir opnar sýninguna “Fjöll og form”
í Artak105 Gallery, Skipholti 9. Föstudaginn
23. september kl. 16.00 – 19.00
Einnig verður opið
laugardag og sunnudag, kl.14.00-17.00
Allir hjartanlega velkomnir. (Aðeins þessi eina sýningarhelgi)
Dagrún Matthíasdóttir er búsett á Akureyri.
Hún er sjálfstætt starfandi myndlisamaður og
myndmenntakennari í Oddeyrarskóla.
Árið 2021 fékk hún þann heiður að vera valin
Bæjarlistamaður Akureyrar og hefur á starfstímabilinu
sett upp einkasýningar á nýjum verkum og tekið þátt
í samsýningum. Á vormánuðum opnaði sýning hennar
Formflæði í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og verða
valin verk úr þeirri sýningu í sal ArtAk 105 ásamt
nokkrum olíumálverkum.
Dagrún lærði í Myndlistaskólanum á Akureyri, Kennslufræði og Nútímafræði við
Háskólann á Akureyri með viðkomu í skiptinámi í Listfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur unnið við utanumhald viðburða og eitt verkefna hennar er List í Alviðru þar sem hún tengir saman listamenn frá Norðurlandi eystra og listamenn á Vestfjörðum í verkefni í gerð umhverfislistaverka. Dagrún hefur einnig séð um rekstur og sýningarstjórn viðurkenndra sýningarstaða á Akureyri, Mjólkurbúðina og DaLí Gallery ásamt samstarfi í Listhópnum RÖSK sem er þekktur fyrir lifandi sýningastarf og gjörninga. Einnig hefur hún tekið virkan þátt í félagsstörfum í Listagilinu og situr í stjórn Myndlistarfélagsins.
Dagrún hefur haldið á þriðja tug einkaýninga, þar af í New York 2011 auk þáttöku í fjölda samsýninga bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur farið reglulega í gestavinnudvöl bæði hér heima og utan landsteinananna. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum listahátíðum erlendis s.s.Kunst I Natur,
Fjellfestival í Isfjorden í Noregi (2017, 2019), alþjóðlegu listverkefni á Mauritius í SA-Afríku (2017) og alþjóðlegum gestavinnustofum í Ungverjalandi og á Ítalíu.